top of page
  • Writer's pictureÞorsteinn Hjaltason

Ketófæðið kannski ekki svo vitlaust .... ?

Meðalhóf merkir hæfilegt en öfgar of mikið. Það liggur því í augum uppi að meðalhóf er betra en öfgar og flestir ættu að geta verið sammála því. Vandinn liggur hins vegar í því, að átta sig á því hvað er meðalhóf og hvað eru öfgar, eins og t.d. hvort lengd þessarar innfærslu sé of löng eða hæfileg. Fyrir nokkrum dögum sagði ég, að svonefnt keto mataræði væri öfgakennt og óhollt að hafa ketonsýrur í blóði. Allt í samræmi við lærdóm síðustu áratuga, þ.e. að kolvetni (sykur), eigi að vera um 60% hitaeininga í mataræði og fita, sérlega mettuð sé óholl því hún valdi innri fitusöfnun t.d. í æðum og valdi því hjartasjúkdómum og ytri fitusöfnun. Mér var bent á að vel lærðir og skynsamir menn héldu öðru fram. Ég gáði og það var rétt. Svo ég kynnti mér keto mataræði. Mig langar til að deila því helsta sem ég fann út hér á eftir og skulda ykkur það reyndar eftir síðasta pistil um efnið. Þekktu sjálfan þig er gömul speki. Hún á ekki bara við um sálarlíf þíns innri manns eins og Stuðmenn sungu, heldur líka um efnaskipti líkamans, þ.e. hvernig hann vinnur orku úr fæðunni. Efnaskiptin eru gríðarlega flókin. Hvert líffæri hefur mismunandi efnaskipti og þau eru mismunandi eftir fæðuflokkum. Til að bæta gráu ofan á svart eru efnaskipti ekki eins hjá öllum. Ef við skoðum fræðin og rannsóknarniðurstöður óháðra rannsóknarstofnanna t.d. NCBI (The National Center for Biotechnology Information) þá kemur í ljós að hugmyndir, sem haldið hefur verið mest á lofti um efnaskiptin, eru einfaldlega rangar. Það er ekki óhollt að borða mettaðar fitusýrur, eins og kjöt, dýrafita, smjör, ost og kókosfitu. Kolvetni í því magni sem við borðum og mælt hefur verið með (60% af fæðu) er einfaldlega of mikið, öfgar. Það eru kolvetni, sem valda offitu, hjartasjúkdómum o.s.frv. Valda bólgum og er breytt í fitu í lifur sem sest innan í æðar. Ef kolvetni eru tekin út og mettaðar fitusýrur settar inn, lagast kólesteról í blóði HDL (góða) fer upp og LDL (vonda) fer niður. Það er ekki undarlegt þó við almenningur séum orðin ansi tortrygginn á það sem sagt er varðandi hvað eigi að borða og hvað ekki og í hvaða hluftöllum. Kolvetnasprengja yfirvalda í ráðlögðu mataræði virðist vera gríðarleg mistök. Staðreyndin er sú að við þekkjum illa okkur sjálf, m.a. okkar eigin efnaskipti en það er að breytast. Ketófræðin byggja á þeirri grunnhugmynd að magn kolvetna í fæðu sé ekki í hófi heldur sé það komið út í miklar öfgar. Það leiði til þess að sykurmagn í blóði fari eftir hverja einustu máltíð eða snakk langt upp fyrir það sem líkaminn er sáttur við, sem leiðir til sífelldrar baráttu hans við að koma blóðsykrinum í rétt horf, m.a. með því að dæla í blóðið alls kyns hormónum með insúlín fremst í flokki. Ástandið sé óheilbrigt og geti leitt til alls kyns sjúkdóma. Stóra spurningin er hins vegar, hve mikið á að borða af kolvetnum? Við skulum hafa það alveg á hreinu að kolvetni eru líkamanum lífsnauðsynleg. Við þurfum hins vegar líka að vita að líkaminn getur búið til kolvetni, með gluconeogenesis ( GNG), úr próteinum og fitu svo það er ekki lífsnauðsynlegt fyrir okkur að fá kolvetni úr fæðunni. Frumkvöðlar lág kolvetna mataræðis (t.d. Atkins (1972) og reyndar miklu fyrr) tóku eftir að þegar kolvetnaneyslu er haldið í miklu lágmarki þá jókst magn svokallaðra ketóna í blóði. Þeim e.t.v. til undrunar gátu frumur líkamans notað ketóna sem orku alveg með sama hætti og glúkósa, nema bara að ferlið var miklu einfaldara. T.d. hefur lítið ketóna-orku-mólekúl ekki þörf fyrir insúlín til að komast inn í frumur líkamans. Ketónar eru ekki eitur, nýfædd ungabörn nýta sér ketóna, eru í léttu ketósaástandi á fituríkri móðurmjólkinni. Lifrin brýtur niður fitusýrur (fitu) og býr til vatnsleysanleg orkumólekúl sem nefnd hafa verið ketónar. Frumefni ketóna er kolefni, vetni og súrefni rétt eins og kolvetnis. Líkamanum virðist líka vel við ketóna í réttu magni í blóðinu, rétt eins og hann elskar að hafa kolvetni í réttu magni og stöðugu í blóðinu. Jafnvægi er það sem hann þarf og leitar eftir. Með mikilli kolvetnaneyslu, eins og t.d. brauð, sykur, gosdrykkir, sælgæti og ávextir (sælgæti nátturúnnar) kveikna eldar sem líkaminn þarf að slökkva. Hann ræður vel við það en ef hann þarf að gera það daglega í miklu magni áratugum saman verður slökkviliðið (insúlín o.fl.) uppgefið í baráttunni og hundsar útkallið og úr verður sykursýki. Við það hækkar blóðsykur stjórnlaust, en aðrar stöðvar líkamans halda að blóðsykurinn sé enginn því ekkert insúlín er í blóðinu, svo líkaminn framleiðir ketóna til að mæta orkuþörfinni og í miklu meira magni en hollt er. Þetta er sjúklegt ástand, þ.e. allt of mikill blóðsykur, allt of mikið magn ketóna. Þetta er nefnd ketónsýrueitrun og hún er lífshættuleg. Vitanlega er ekki hægt að fordæma ketóna og telja þá eitur með að benda á þetta ferli. Þá gætum við alveg eins dregið þá ályktun að blóðsykur sé eitur því hann veldur miklu tjóni í allt of háum skömmtum, eða vatn, því hægt er að drepa sig á allt of mikilli vatnsneyslu. Það var kannski óheppilegt að kenna mataræðið við ketóna því fáfróðir (þ.e. ég, sbr. fyrri pistil) tengja við ketónsýrueitrun og halda að allur vottur af ketónum í blóði sé hið versta mál. Margir vísindamenn segja að heppilegt magn blóðsykurs sé um 4,6 mmol/ltr (83 mg/dl) og ákjósanlegt sé að halda því í jafnvægi. Talað er þó um að í lagi sé að magnið sé á bilinu 3,9 til 7.1 mmol í hverjum líter blóðs, eða 70 til 130 mg/dl. Miðað við 100 mg/dl eru alls 5 gr af sykri í blóði meðalmanns (5 ltr). Í einni brauðsneið er þrefalt það eða 15 gr. Ef blóðsykri er haldið við þessi mörk og komið er í veg fyrir sveiflur með lágkolvetna mataræði eykst magn ketóna frá því að vera 0-0.6 mmol/ltr í 1 til 1,3 mmol/ltr., jafnvel í 1,5 til 3 mmol/ltr. Líkaminn lærir aftur að brenna fitu og breyta í ketóna sem frumur líkamans geta nýtt sér. Orka er ekki bara fengin úr glúkósa heldur fitu líka og af henni er gnótt. Það er afar misjafnt hvað hver einstaklingur má borða af sykri til að viðhalda jöfnu magni glúkósa og ketóna í blóði. Það getur verið 13 gr eða 100 gr af sykri á dag. Prótein þarf líka að takmarka því líkaminn getur framleitt glúkósa úr próteinum. Hve mikið það er takmarkað er einstaklingsbundið en sumir hafa byrjað á 1 gr. á kg á dag. Fita verður meginorkulind líkamans. Fæðupýramídanum er snúið haus, fita kemur í stað kolvetna og kolvetnin eru sett efst þ.e. í minnsta magni. Áratuga áróður gegn fitu sérlega mettaðri (smjör, ostur, rjómi, kókósfita o.s.frv.) gerir okkur treg til þessa en margir málsmetandi vísindamenn hafa snúist gegn þessum hugmyndum sbr. tilvitnun hér að ofan. Ketómataræði er því í hnotskurn: Lítill sykur (einstaklingsbundið e.t.v. ca. 13-100 gr á dag), takmörkuð prótein (einstaklingsbundið e.t.v. ca. 1. gr. á kg.) og mikil fita (nauðsynlegt, takmörkuð kolvetni og takmörkuð fituneysla gengur ekki upp), sem leiðir til jafns glúkósamagns í blóði ca. 4,6 mmol/ltr og aukins magns ketóna, 1 til 1,3 eða jafnvel 1,5 til 3 mmol/ltr blóðs. Mér finnst þetta afar spennandi og reyndar líka skynsamlegt miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir. Það tók langan tíma að taka blý úr bensíni þó bent væri á það áratugum saman að það væri að drepa allt líf á jörðunni. Það var að lokum viðurkennt og enginn skilur nútildags hvernig í ósköpunum þessi reginheimska gat gengið svona langt. Það virðist ætla að taka jafnlangan tíma að ná kolvetnum úr fæðunni þó rannsóknir bendi til alvarlegra afleiðinga. Enda er oft tregt um breytingar, sem leiða til peningataps valdamikils fólks. Kannski munu barnabörnin hugsa með sama hætti til kolvetna í fæðu og við hugsum nú til blýs í bensíni. Ég hef opnað augu og eyru. Ég ætla að prófa ketómataræði, þ.e. mjög lítill sykur, takmarkað prótein og mikil fita. Það sem ég vonast til að fá út úr því er jöfn brennsla glúkósa (kolvetna) og ketóna (sem koma úr fitu). Það leiðir vonandi til þess að ég þurfi ekki að hafa með mér kolvetnabréf í reiðhjóla og mótorhjólaferðum o.fl., ég gangi ekki lengur á vegginn þegar kolvetnin þrýtur og ég verð að sötra í mig kolvetnin til að halda áfram. Magn kolvetna í geymslum líkamans er takmarkað við ca. 1800 til 2000 kaloríur. Orkan í fitu er hins um 100.000 kaloríur, jafnvel miðað við fitumagn íþróttamanns í toppþjálfun. Það er vitanlega ekki eðlilegt ástand að þurfa sífellt að bæta á kolvetnabirgðir líkamans vegna þess að við erum ekki almennilega fær um að skipta hratt og vel yfir í að brenna fitu með því að brjóta hana niður í ketóna og glúkósa. Ég minni á bílalíkingu í síðast pistli, hún er röng alveg öfug. Það væri kannski nær lagi að líkja okkur við tengiltvinnbíl (hybrid rafmagnmótor og dísel- eða bensínvél), og við kynnum ekki að nota nema rafmagnshlutann. Þegar við værum búin aka 30 km og búin með rafmagnið kynnum við ekki aðra leið til að halda áfram en að setja bílinn í samband aftur og hlaða meira rafmagni á hann í stað þess að nota hitt eldsneytið og fara strax 1000 km lengra. Annar ávinningur sem ég vonast eftir er minni bólgur og eymsli. Ketónar eru bólgueyðandi og kolvetni í óhófi eru bólgugefandi. Alls kyns bólgur eru oft ein af orsökum ýmiskonar sjúkdóma, eins og t.d. hjartasjúkdóma og krabbameins. Nnefna má líka að sumar krabbameinsfrumur geta bara brennt glúkósa en ekki ketónum. Þetta er vitanlega góð tilhugsun, en núna er ég helst að hugsa um bólgur í vöðvum og sinum sem valda óþægindum og eymslum, sérlega eftir átök og æfingar. Ég er reyndar líka að hugsa um annað í þessu sambandi, best að leggja allt á borðið. Haustið 2014 ofreyndi ég mig herfilega og hef síðan barist við verki í fótavöðvum sem lýsa sér eins og CCS (chronic compartment syndrome), ég ætla ekki að lýsa þeim en áhugasamir geta gúgglað. Eina lækningin sem boðið er upp á er uppskurður til að ná niður þrýstingi í vöðvunum. Ég næ að halda verkjum mikið í skefjum með hvíld, takmarka æfingar, daglegu nuddi og fl. Ég þori varla að skrifa það en vitanlega vona ég að það gæti haft áhrif að breyta mataræðinu með þessum hætti. Ég finn engin dæmi um það á netinu en sjáum til. Það er svo sem ekki vitað hvað veldur þessum þrýstingi í vöðvum en við vitum að til að geyma glýkógen í vöðvum þarf mikinn vökva og kannski hefur þetta eitthvað ruglast, t.d. hlutfall vökva og glýkógens, hver veit. Ef ég endurræsi kerfið með því að taka út glúkósann, hleð upp á nýtt, og keyri meira á ketónum og fitu gæti eitthvað breyst. Auk þess sem fitan tekur miklu minna rými þarf ekki vatn til geymslu og er helmingi orkumeiri; tja hver veit, kannski þarf bara að taka til og raða upp á nýtt ... og endurræsa:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil með spekingslegum svip og taka í nefið. (Og allt með glöðu geði er gjarna sett að veði.) Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til, því það er nefnilega vitlaust gefið. (Steinn Steinarr)

Þá hafið þið það, þ.e. þau ykkar sem nenntu að lesa svona langt, mér fannst einfaldlega að þið ættuð þennan pistil inni hjá mér.


99 views0 comments

Comentários


bottom of page