top of page
-
Hvenær fást bætur greiddar?Ekki er hægt með neinni nákvæmni að segja til um þetta fyrirfram. Fjöldi þátta spila inn í hvert mál og hafa áhrif á hve langan tíma tekur að ljúka hverjum hluta þess. Þó má reyna að gefa einhverja almenna hugmynd um það með því að skýra ferlið örlítið. Bætur fyrir vinnutap og útlagðan kostnað eiga að greiðast jafnóðum og tjón verður og hægt er að sanna það. Bætur fyrir varanlegt tjón í framtíðinni, eins og t.d. varanlegan miska og vinnutap í framtíðinni vegna varanlegrar örorku, fást greiddar þegar hægt er að sanna tjónið. Sú sönnunarfærsla fer að mestu fram með örorkumatsskýrslu. Ekki er hægt að afla slíkrar fyrr en ljóst er hvernig ástandið verður sem þýðir að það verður að bíða þar til ástandið er orðið varanlegt þ.e. öll einkenni eru komin fram, læknismeðferð og endurhæfingu er lokið og varanlegur árangur endurhæfingar er kominn í ljós. Það getur verið mjög misjafnt hvenær þetta tímamark er komið en að jafnaði er það einu ári eftir slysið. Það tekur venjulega nokkra mánuði að afla örorkumats. Þegar örorkumatið berst er gerð krafa á tryggingarfélagið og venjulega tekur það nokkrar vikur að ná samningum.
-
Hvers konar bætur eru greiddar vegna umferðarslysa?Skaðabætur eru greiddar en markmið þeirra er að gera tjónþoli fjárhagslega eins settan og hann hefði ekki lent í slysinu. Bótaskylt fjártjón greinist í nokkra liði. Fyrst má nefna útlagðan kostnað eins og t.d. lækniskostnað, lyf og sjúkraþjálfun. Svo vinnutap, þ.e. ef tjónþoli verður óvinnufær eftir slysið á hann rétt á því að tryggingarfélagið bæti honum tekjutapið eftir að veikindalaunum sleppir. Að síðustu er það tekjutjón í framtíð. Mikið fjártjón getur orðið í framtíðinni ef geta til að afla tekna hefur skerst af völdum slyssins. Allt þetta fjártjón þarf að bæta. En auk þess bætist ófjárhagslegt tjón.
-
Fæ ég bætur vegna ófjárhagslegs tjóns eftir umferðarslys?Já. Þjáningabætur er tímabundið ófjárhagslegt tjón nefnt í skaðabótalögum. Það er ákveðin fjáhæð á dag sem er uppfærð eftir vísitölu. Það er metið í örorkumati í lok máls hve langt þetta tímabil er. Varanlegt ófjárhagslegt tjón er nefnt miski. Ófjárhagslegt tjón er ómetanlegt, þ.e. enginn tengsl eru á milli peninga og þess miska að geta hlaupið eða gengið almennilega. Því var búinn til mælistokkur til að mæla varanlegt ófjárhagslegt tjón svo hægt sé að breyta því í peninga. Afleiðingar eru metnar eftir mælikvarða sem nefnist miskatöflur. Svo er gera fjárkröfu á þeim grunni.
-
Á ég rétt á bótum vegna andlegs tjóns vegna umferðarslyss?Já. Með líkamstjóni er bæði átt við tjón á líkama og sál, þ.e. andlegt tjón er líkamlegt tjón. Tjónþoli á rétt á bótum fyrir líkamstjón sitt.
-
Fæ ég bætur ef ég lendi í umferðarslysi og er í órétti?Já, venjulega myndir þú fá bætur þó þú værir í órétti, þó getur stórkostlegt gáleysi eða ásetningur dregið úr bótarétti..
-
Fæ ég tekjutjón bætt?Réttur til greiðslu á tekjutapi og dagpeningum fer eftir því hvers konar slys er um að ræða og hvers konar tryggingar eru fyrir hendi. Þú gætir átt rétt á dagpeningum eða bótum vegna tekjutaps og stundum jafnvel hvoru tveggja. Þú gætir t.d. átt rétt á greiðslum frá atvinnurekanda, sjúkrasjóði stéttarfélags, Sjúkratryggingum Íslands, Tryggingastofnun ríkisins og/eða lífeyrissjóði.
-
Fást bætur fyrir tjón á munum?Tjón á persónulegum munum og fatnaði fæst í mörgum tilfellum greitt frá tryggingafélagi. Athugið að geyma fatnað og muni sem hafa skemmst þar sem tryggingafélagið getur óskað eftir, að fá það sem skemmdist til skoðunar. Við sjáum um að innheimta fyrir þig munatjón.
-
Fæst allur sjúkrakostnaður greiddur?Það er misjafnt. Nefna má að í umferðarslysum, vinnuslysum og þegar skaðabótaréttur er fyrir hendi, er sjúkrakostnaður allur greiddur. Í frítímaslysum er hægt að fá sjúkrakostnað að hluta til greiddan úr slysatryggingum heimilistrygginga. Við finnum þær leiðir sem mögulegar eru og sjáum um innheimtu á öllum kostnaði fyrir þig. Mikilvægt er að geyma frumrit allra reikninga vegna kostnaðar.
-
Hver er gangur slysamálsins?Á fyrsta fundi er farið yfir réttarstöðu þína , gang mála og ferlið útskýrt. Þú færð skriflega minnispunkta um helstu atriði málsins. Við sjáum um að halda þér skaðlausum, t.d. með að innheimta útlagðan kostnað og vinnutap. Beðið er með örorkumat þar til öll einkenni eru komin fram, læknismeðferð og endurhæfingu er lokið og varanlegur árangur endurhæfingar er kominn í ljós. Þegar þessu tímamarki er náð, ráðum við matsmenn til að meta ástandið og hvernig það muni verða í framtíðinni. Þeir munu funda með þér og við undirbúum þig fyrir þann fund. Þegar við fáum örorkumatsskýrsluna í hendur gerum við kröfur á félagið á grunni hennar o.fl. og þú átt svo síðast orðið um það hverju eru tekið og hvernig. Þú borgar ekkert fyrir þjónustu okkar í slysamálum nema þú fáir einhverjar bætur.
-
Hvað þarf ég að gera ef ég lendi í slysi?Það er kannski óþarfi að taka það fram en það er mikilvægt að leita til læknis. Þú kannski telur að þú verðir betri og náir þér að fullu en ef svo fer ekki þá er mikilvægt að hafa farið sem fyrst til læknis til að geta síðar fært sönnur á afleiðingar slyss ef með þarf. Það heitir að hafa "samtíða" frásögn af slysinu. Þú lýsir öllum áverkum og meinum. Allt frá þeim stóru til þeirra allra smæstu. Lítið mein getur stundum orðið alvarlegt þegar frá líður og þau stóru horfið. Mikilvægt er að fara yfir réttarstöðuna með sérfræðingi í skaðabótamálum og fá leiðbeiningar eða aðstoð um næstu skref. Það þarf alltaf að tilkynna slys til vátryggingafélags og annarra aðila sem málið varðar. Sumar kröfur vegna slysa geta fyrnst á einu ári, sumar fyrnast á 10 árum. Í öllum tilvikum er samt best að sinna rétti sínum sem allra fyrst eftir slys.
-
Hvað skal hafa í huga þegar farið er til læknis?Það er mikilvægt að gera sér minnispunkta áður en farið er á fundi, líka hjá lækninum. Gera lista yfir allar afleiðingar stórar sem smáar. Stundum er það svo að það sem næstum hvarf í skuggan af alvarlegum afleiðingum slyss á fyrstu dögum og vikum geta orðið verstu eftirstöðvar slyssins. Það er slæmt ef ekki hefur verið minnst á þær afleiðingar í fyrstu heimsóknum til læknis. Því er reglan sú að telja samviskusamlega fram allar afleiðingar í heimsóknum til læknis. Helst að láta hann fá minnispunktana á blaði svo ekkert fari á milli mála, hægt er að gleyma, misheyra, misskilja o.s.frv. Því betri og nákvæmari upplýsingar sem læknirinn fær því meiri líkur á því að greining hans og meðferðaráætlun verði betri. Það er líka gott að hafa skráð fyrirfram niður spurningar sem þú vilt leggja fyrir lækninn. Allt sem liggur þér á hjarta, t.d. greining vandans og batahorfur og tímasetningar, líkleg framvinda o.s.frv. Svo er rétt að rita niður minnispunkta um það sem læknirinn segir. Auðvelt er að fara á læknisfund og muna lítið eftirá af því sem hann sagði.
-
Hvers vegna að leita til lögmanns?Til að vera viss um að allur réttur til bóta sé að fullu kannaður og réttlát niðurstaða fáist. Þú gætir t.d. átt rétt á bótum frá fleiri en einum aðila, og úr fleiri en einni tryggingu. Þessu þarf öllu að halda til haga. Til að þú getir einbeitt þér að því að ná góðum bata á meðan við sjáum um öll samskipti við tryggingafélög og aðra aðila sem máli skipta, með öflun gagna, innheimtu á tekjutapi/dagpeningum og innheimtu á útlögðum kostnaði svo eitthvað sé nefnt. Tryggingarfélögin gæta sinna hagsmuna. Þú þarft sérfræðing í bótamálum til að sinna þínum hagsmunum.
-
Hvað kostar að leita til okkar vegna slysamála?Engin þóknun er greidd nema þú fáir bætur. Þóknunin er gerð upp í lok málsins. Við leggjum út fyrir útlögðum kostnaði vegna gagnaöflunar eins og læknisvottorðum og örorkumati. Þóknun er hlutfallsbundin þannig að ef bætur eru lágar er innheimtuþóknun líka lág, þannig að það er alltaf til einhvers barist. Tryggingarfélögin greiða venjulega ekki neitt af innheimtuþóknun í málum út af slysatryggingum (nema í slysatryggingum skv. umferðarlögum og slysatryggingum sjómanna). Ef um ábyrgðartryggingu er að ræða eins og t.d. í umferðarslysum greiðir tryggingarfélagið alltaf hluta af innheimtuþóknun og í sumum tilfellum greiða félögin innheimtuþóknun að öllu leyti. Aðalatriðið er að ef engar bætur fást greiðir þú ekki lögmannskostnað.
-
Hvað þarf atvinnurekandi að gera ef vinnuslys verða?Þegar búið er að sinna hinum slasaða þarf atvinnurekandi að tryggja sönnur um aðstæður á slysstað. Ef um slys er að ræða sem valda því að launþeginn er frá vinnu þarf að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins og lögreglu og fá rannsókn á vettvangi og orsökum slyssins. Svo þarf að tilkynna slysið til Sjúkratrygginga Íslands og til þess tryggingarfélags sem sér um launþegatryggingar. Atvinnurekandinn á líka að ganga eftir því að launþeginn tilkynni sjálfur til SÍ og tryggingarfélags. Þetta er ekki allt laga skylda en allir aðilar, líka ativnnurekandinn, hefur hagsmuni af því að þetta sé gert. T.d. fær atvinnurekandi endurgreiddan útlagðan kostnað sem hann hefur greitt vegna launþegans og dagpeninga á meðan hann greiðir veikindalaun. Réttur getur tapast ef ekki er tilkynnt innan árs.
-
Hvað rétt á ég utan við slysatryggingar og skaðabótarétt?Öryggisnet og bótaúrræði eru margvísleg. Þau fara eftir aðstæðum við slysið og aðstæðum tjónþola sjálfs. Nefna má þessi úrræði: Veikindakaup í lágmarkstíma skv. lögum eða lengri ef kjarasamningur tryggir slíkt. Greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags þangað til réttur skapast í lífeyrissjóð. Sér reglur eru hjá hverjum sjúkrasjóði hvers stéttarfélags. Greiðslur úr lífeyrissjóði, venjulega þegar óvinnufærni hefur staðið í 6 mánuði og greiðir þá sjóðurinn 3 mánuðir aftur í tímann. Slysadagpeningar frá Sjúkratryggingum Íslands vegna vinnuslysa o.fl. Sjúkrahjálp frá frá Sjúkratryggingum Íslands vegna vinnuslyss o.fl.. Örorkubætur frá Sjúkratryggingum Íslands. Endurhæfingalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins á endurhæfingatíma. Lífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins ef endurhæfing hefur ekki tekist. Slysatrygging launþega vegna vinnuslysa, vátrygging sem atvinnurekandi tekur skv. kjarasamningi. Skaðabætur ef vinnuslys er vegna gáleysis annarra, t.d. óforsvaranleg vinnuaðstaða (öryggismál ekki í lagi t.d.) eða einhver vinnufélagi hefur gert mistök og valdið slysinu, sem verður þó ekki ábyrgur heldur atvinnurekandinn og tryggingarfélag hans greiðir bætur úr ábyrgðartryggingunni.
Slysabætur, tryggingar o.fl.
bottom of page