top of page
  • Writer's pictureÞorsteinn Hjaltason

Fæða fornustu forfeðra okkar. Paradísarmissir og Paradísarheimt.

Giovanni Stanchi (1608–1672) var ítalskur listmálari sem átti það til að mála myndir af mat, m.a. þessa þar sem neðst í hægra horninu gefur að líta vatnsmelónur. Myndina málaði hann ca. 1645-1672.

Giovanni Stanchi (1608–1672)

Fyrir áhugasama sýnist mér að verkið sé til sölu á Christies eða a.m.k. metin þar á 100 til 150 þúsund dollara. Hér er til samanburðar mynd af nútíma vatnsmelónu.

Nútíma vatnsmelóna

Ansi miklar breytingar ekki satt, á ekki lengri tíma. Við höfum sem sé verið að rækta og (gena) breyta matvælum í þúsundir ára. Nútíma ávextir eða grænmeti eins og gulrætur eða blómkál eiga lítið sammerkt með upprunalegu plöntunni sem var á matseðlinum hjá steinaldar-paleo-ísaldarmönnum. Við höfum ræktað ávexti og grænmeti til að gera þá okkur þóknanlegri, m.a. kolvetnaríkari.

Villt korn

Ræktað nútímakorn

Vitanlega var fæði ísaldarmanna breytilegt eftir stað og tíma, herra Flintstone borðaði það sem hann fann og veiddi, ávexti, rætur, korn, fræ, kjöt o.s.frv. Það varð ekki það sama á vegi hans í ágúst eða janúar eða á heitum eyðimörkum, skógi, túndrum eða á frosnum heimskautasvæðum. Hann borðaði kolvetni en aðgengi hans var takmarkað að þeim gæðum, m.a. vegna þess að hver eining innihélt miklu minna af kolvetnum en við erum búin að rækta þær í nútildags.

Villt gulrót

Í gulrótum, banönum, rófum o.s.frv. var miklu minna af kolvetnum en er núna, auk þess var hlutfall trefja hærra. Það má því segja að jafnvel þó við borðum bara grænmeti, kjöt og fisk þá sé frekar erfitt eða ómögulegt að borða ekki töluvert meira af kolvetnum en fornustu forfeður okkar gerðu.

Ræktaðar nútíma gulrætur

Auk þess sem við höfum bætt ýmsu sykruðu góðgæti á matseðilinn. Fornmaðurinn hefði t.d. þurft að innbyrða tæplega 3 metra af sykurreyr til að fá jafnmikið af sykri og við fáum í 0,5 ltr. af meðal sykruðum gosdrykk. Kolvetni lágu sem sé ekki á lausu. Það má hins vegar vel vera að kolvetni hafi verið uppistaða fæðu fornra tegunda því líkaminn brennir þeim auðveldlega og getur ekki án þeirra verið (maðurinn þarf þó ekki að fá kolvetni í fæðu). Síðar hefur sjálfsagt dregið úr kolvetnaframboði og tegundirnar þróað það flókna efnaferli sem þær nota núna til að breyta laktati, próteinum og fleiru í kolvetni. Af þessu má draga þá ályktun að það sé í það minnsta ekki sérlega náttúrulegt núorðið fyrir manninn að fá 33% til 65% af næringu sinni úr kolvetnum eins og ráðlagt er víða af yfirvöldum. Það hefði hentað vel fyrir fornsögulega sköpunarverkið, sem lifði á kolvetnaöldinni en það er liðin saga og hentar illa eftir þær breytingar sem orðið hafa á orkuvinnslu þ.e. efnahvörfum (metabolisma) mannsins. Það má orða það svo að glýkólýsa, sykrurof, þ.e. að framleiða orku úr sykri, sé afar forn orkuvinnsla sem afar margar lífverur nýta sér. Það má kannski geta sér til um að kolvetnaverurnar hafi verið þau skötuhjú Adam og Eva. Þau áttu jú um langt skeið heima í náttúrunnar sælgætisbúð, þ.e. þar langt austur frá í aldingarðinum Eden þar sem Guð hafði sett þau eftir sköpun þeirra. Jafnvel þó Guð hafi reyndar ekki skapað ávextina eins sæta og maðurinn gerði síðar þá höfðu þau, Adam og Eva, frjálsan aðgang að þeim og lifðu ekki á öðru að því er best verður að komist. Þó sagt sé að Adam hafi ekki verið lengi í Paradís þá held ég að það séu ýkjur, þau voru þarna áreiðanlega í afar langan tíma. Adam náði trúlega ekki lægri aldri en afkomendur hans sem urðu háaldraðir. Nefna mætti marga en látið nægja að nefna Jared (962 ára), Metúsalem (969 ára) og Nóa, sem varð 950 ára og eignaðist börn rétt rúmlega 500 ára. Eins og kunnugt er voru þau Adam og Eva rekin úr garðinum fyrir glópsku Evu (því hefur reyndar hugsanlega verið logið upp á hana því gott er að kenna einhverjum öðrum um en sjálfum sér. Sérlega ef klúðrið er mikið eins og t.d. Paradísarmissir). Nóg um það, þetta er öllum svo kunnugt að ekki er frásagnarvert. Vitanlega hafði líkami Adams og Evu aðlagast sykurátinu. Næringin hefur trúlega þó reyndar ekki verið nema um 20% úr kolvetnum. Trúlega þó mun minna því ávextir Guðs voru kolvetnasnauðari en mannsins. Eftir að vistinni lauk og verulega dró úr framboði á kolvetnum urðu þau að laga sig að því. Ég hélt ég væri að skrifa mig að grundvellinum að ráðlögðum skammti yfirvarvalda. Verið væri að nálgast kolvetnaskammta Paradísar, svona eins konar Paradísarheimt. Svo er þó ekki. Meira að segja þau neðri mörk, sem Landlæknir er kominn í núna, þ.e. 33% kolvetni, er trúlega meira en helmingi meira en Adam og Eva fengu á eintómum ávöxtum Guðs í aldingarðinum Eden.


Pólskt olíuverk frá um 1510


171 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page