top of page
  • Writer's pictureÞorsteinn Hjaltason

Móbergið á Vaðlaheiði

Þessar myndir eru einfaldlega svo fallegar að ég var knúinn til að deila þeim. Vaðlaheiði hefur mörg andlit. Öll falleg að mínu áliti. Meðfylgjandi myndir eru flestar af móbergi. Lengi vel höfðu menn ekki hugmynd um hvernig það myndaðist. Ýmsar kenningar voru á lofti en það var eiginlega ekki fyrr en með Surtseyjargosinu að hægt var að átta sig á því hvernig það varð til. Móberg verður til þegar hraunið snöggkólnar við snertingu við vatn eða sjó. Hraunið snöggkólnar og tvístrast. Svo kólnar massinn og límist saman og myndar móberg á ótrúlega skömmum tíma. Það má sjá svartar og hvítar gleragnir í móbergi og oft er það rauðleitt vegna járns. Mikið af móbergi Íslands myndaðist á ísöld enda voru virk eldfjöll undir jöklum. Við eldgosið bráðnaði jökullinn og vatnið kældi hraunið og móbergið varð til (eins og varð t.d. í Gjálpargosinu 1996). Mörg móbergsfjöll eru því á því svæði sem hefur verið eldvirkt síðustu milljón árin og er enn, eins og t.d. Bláfjall, Herðubreið og fleiri stapar. Ef gosið nær upp úr jöklinum verður til venjuleg hraunbreiða eins og er efst á Herðubreið. Reyndar er margt enn órannsakað varðandi móberg og ýmiskonar setlög sem myndast hafa við eldgos í vatni og undir jöklum. Tala nú ekki um það sem eldra er en ísöld. Ísöld hófst á Íslandi fyrir um 3 milljónum ára en móbergið í Vaðlaheiði er á að giska u.þ.b. 2-3 milljónum ára eldra svo trúlega hefur orðið mikið gos í stöðuvatni. Töluvert er af móbergi í heiðinni þar sem myndirnar voru teknar svo vatnið hefur verið stórt. Nefna má að móberg er líka að finna í Kaupangsfjalli rétt sunnan Bíldsárskarðs og efst á Lundsfjalli, sem er gegnt Vaðlaheiði í Fnjóskadal. Hugsanlega er þetta ein og sama gosmyndunin í afar stóru vatni. Auk þess má nefna að menjar stöðuvatns hafa fundist í Hlíðarskál ofan Akureyrar.


57 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page