top of page
  • Writer's pictureÞorsteinn Hjaltason

Fitnessfréttir ekki hollar ketómataræði.

Updated: Dec 18, 2018


Rannsóknum á áhrifum svokallaðs ketómataræðis (KM) fjölgar og er það vel. Upplýsingar eru greindar og reynt að læra sem mest af niðurstöðum. Um þessar rannsóknir er oft fjallað í fagtímaritum og þær túlkaðar og niðurstöður dregnar saman til þæginda fyrir áhugafólk.

Á heimasíðu Fitnessfrétta (www.fitness.is) segir: „Markmið Fitnessfrétta er að hvetja almenning til að stunda líkamsrækt, hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl. Lögð er áhersla á faglegar greinar sem byggjast á heimildum.“




Blaðið fjallaði um eina slíka rannsókn (Nutrition and Metabolism, 14: 17, 2017), sbr. grein í blaðinu https://fitness.is/slaemar-frettir-fyrir-ithrottamenn-a-ketogenisku-mataraedi/

Ég get ekki betur séð en að blaðið segi ekki rétt frá niðurstöðum rannsóknarinnar og túlki þær rangt.

Blaðið segir:

„Lifrin framleiðir ketóna þegar skortur er á kolvetnum og hitaeiningum í mataræðinu til að tryggja heilanum næga orku.“ Nokkrum orðum síðar er greinarhöfundur búinn að skipta um skoðun því hann segir að KM sé að vera á „ ... kolvetnalágu en orkuríku mataræði“. Það fyrra er sem sé rangt. Það þarf ekki að vera skortur á hitaeiningum í mataræðinu til að líkaminn framleiði ketóna. Ef ekki er offramboð af kolvetnum framleiðir líkaminn Ketóna annars er hann upptekinn við að brenna kolvetnum, setja í geymslu, eða breyta í fitu til geymslu.

Þetta eru niðurstöður rannsóknarinnar skv. Fitnessfréttum:

„Samkvæmt rannsókn sem Paul Urbain og félagar gerðu við Háskólann í Freiburg í Þýskalandi hentar ketógenískt mataræði ekki íþróttamönnum.“

Er þetta virkilega satt? Með íþróttamönnum á blaðið trúlega við lesendur sína, þ.e. þá sem stunda líkamsrækt og heilbrigðan lífsstíl, sbr. markmið blaðsins hér að framan. Í rannsókninni segir:

„Our findings lead us to assume that a KD (ketogenic diet) does not impact physical fitness in a clinically relevant manner that would impair activities of daily life and aerobic training. However, a KD may be a matter of concern in competitive athletes.“

Niðurstöðurnar benda til þess að ketómataræði (KM) hafi ekki áhrif á líkamsrækt eða íþróttiðkun. Hins vegar GÆTI KM verið umhugsunarefni fyrir keppnismenn. "Gæti verið umhugsunarefni" er ekki grundvöllur til að fullyrða að niðurstöður rannsóknarinnar sé að KM henti ekki íþróttamönnum, þ.e. henti ekki lesendum blaðsins. Það er of djúpt í árinni tekið.

Blaðið segir „Hinsvegar minnkaði hámarks súrefnisupptaka og kraftur.“ Það er ekki rétt að kraftur hafi minnkað á öllum sviðum og auk þess var breytingin ekki mikil. Í rannsókninni segir m.a.

„ ... slightly negative impact on physical performance ... „

„We detected a mildly negative impact ...“

Svo segja þeir:

„We found a mild but significant decrease in absolute VO2peak by 2.4% but the relative VO2peak (normalized to body weight) remained unchanged as the KD caused a decrease in body weight mainly based on FM (fat mass) and fluid loss. „

Þátttakendur brenndu fitu og léttust. Miðað við þyngd þá breyttist súrefnisupptaka ekki.

Blaðið segir:

„Þeir léttust um eitt kíló af fitu og eitt kíló af hreinum vöðvamassa.“

og blaðið bætir við:

„ ... neikvæðra áhrifa á hreysti og hreinan vöðvamassa.“

Sannleikurinn er sá að þátttakendur léttust (auðvitað mismikið) en misstu ekki vöðvamassa. Talað er um FFM = fat free mass og FM fat mass. Blaðið flaskar á því að FFM er ekki endilega vöðvar. Í rannsókninni segir:

„ ... BIA body cell mass, reflecting muscle mass, remained constant.“ (BIA = Bioelectrical impedance analysis notað til að mæla vöðvamassa).

þ.e. vöðvamassi breyttist ekki.

Í rannsókninni segir að vísu að niðurstöður skv. BIA og ADP (Air displacement plethysmography) hafi ekki alveg farið saman varðandi FFM. Um þetta er fjallað og segja svo:

„This could indicate that the FFM loss did not comprise the metabolically active tissue compartment/muscles.“ þ.e. ekki sé um vöðvamassa að ræða.

Í rannsókninni segir líka að vöðvum sé hlíft við brennslu í efnaskiptum í fituríku mataræði. (The muscle-sparing effect during a metabolic state in which fatty acids are predominantly used as the energy source ...). Niðurstaðan um þetta er því þessi í rannsókninni:

„Together with our result having documented a rise in hand grip strength as a surrogate marker of total muscle mass and function, we conclude that our intervention affected neither muscle mass nor muscle function negatively. The body composition changes may be regarded as positive. KM hafi ekki neikvæð áhrif á vöðvamassa, hann minnkar ekki. Breytingar á líkamssamsetningu eru jákvæðar.


Blaðið segir:

„Efnaskiptum kólesteróls hrakaði.“ Í rannsókninni er ekkert fjallað um efnaskipti kólesteróls svo varla er hægt að draga þessa ályktun. Vitanlega er þó verið að gefa í skyn að eitthvað hafi versnað við KM sem tengist kólesteróli. Kólesteról hefur á sér vont orð. Kólesteról er hins vegar lífsnauðsynlegt en getur verið óhollt en það getur nú vatn verið líka ef menn drekka of mikið af því. Margar áhugaveraðar breytingar komu fram í blóðrannsóknum, sem t.d. fólk með skjaldkirtilsóreglu ætti að hafa áhuga á að skoða (Our subjects’ thyroid hormones changed significantly ... ). Kólesteról var líka mælt. Fituprótein (lipoprotein) sem flytur kólesteról, þ.e. LDL (low density lipoprotein) og HDL (high ...) , var mælt og urðu nokkrar breytingar. Samband hjartasjúkdóma og magns LDL og HDL er mjög flókið. Alls kyns breytur skipta máli (hér er góð grein um það eftir Axel Sigurðsson https://www.docsopinion.com/2012/11/21/the-difference-between-ldl-c-and-ldl-p/ ). Í rannsókninni segir líka að þetta samband sé flókið og niðurstöður rannsóknarinnar segi ekkert um þetta. Til dæmis skiptir stærð LDL máli og innihald þess. LDL er sem sé ekki kólesteról heldur flytur það kólesteról og reyndar líka þrýglýserið o.fl. Að segja að LDL og HDL sé kólesteról er kannski eins að segja að strætó sé fólk 😊.. Kólesteról veldur ekki sem slíkt fituhrörnun í slagæðum. Það versnar í því hins vegar þegar kólesteról er bundið atherogenic lipoproteini. Þá gæti æðakölkun hafist. Þetta er hins vegar svo sem ekki alveg ljóst allt saman en málið er að rannsóknin sem við erum að tala um hér, beindist ekki að þessu. Því er frekar langsótt að segja að niðurstaðan sé að „efnaskiptum kólesteróls hrakaði.“ Í rannsókninni segir: „As we did not assess lipoprotein subclasses, the atherogenic risk of our KD (innskot KD=ketogenic diet) remains unclear and requires further investigation combined with the effect of a KD low in saturated but rich in monounsaturated fats.“ Þeir sem fylgja KM ættu vitanlega að fylgjast náið með blóðgildum t.d. blóðfitu, kólesteróli og atherogenic lipoproteini. Málið er hins vegar miklu flóknara en svo að nægilegt sé að skoða bara magn LDL og HDL og hve mikillar fitu er neytt. Skoða verður heildarmyndina, þ.e. tegund fitu, kolvetni, trefjar o.s.frv.

KM hefur reynst mér vel. Það er hins vegar langur vegur frá því að ég þoli ekki að heyra neitt ljótt um þennan vin minn. Það sem knýr mig til skrifanna er því ekki að KM sé andmælt heldur að upplýsingarnar eru rangar. Allt og allir verða að njóta sannmælis, líka KM. Ekki er ráðlegt gefa út einn ríkismatseðil fyrir alla eða stóra hópa fólks (eins og t.d. íþróttamenn). Hvert og eitt okkar verður að finna það sem hentar. Til þess verðum við að fá réttar upplýsingar en ekki illa grundaðar alhæfingar. Þess vegna gat ég ekki orða bundist, eins og oft áður.

796 views0 comments
bottom of page