Ég lofaði lýsingum af ketomataræðinu, svo hér koma þær. En fyrst verð ég að gera grein fyrir útgangspunktinum, þ.e. mér því fyrir mig virkaði mataræðið með neðangreindum hætti, en það þarf ekki að vera svo fyrir þig nema þú sért eins eða svipuð/aður. Hreyfing: Ég hreyfi mig lítið í skrifstofu-vinnunni en fer á virkum dögum í ræktina í hádeginu og hreyfi mig í ca. 45 mín. Um helgar og síðdegis fer ég stundum á reiðhjól eða enduro mótorhjól. Fæði fyrir ketó: Ekkert sælgæti, finnst súkkulaði vont, nema hvítt Toblerone. Borðaði mikið af banönum og epplum. Hafragraut, slátur. Mikið popp. Ekki mjólkurvörur, en gat safnað í að fá mér Brynjuís. Mikið af hrísgrjónamjólk. Mikið kjöt, minna af fiski. Kavíar, maiskökur. Ekki sætar kökur, ekki sætabrauð eða brauð, kex eða snúða o.s.frv. Ég hélt að ég borðaði ekki kolvetni að ráði. Þegar ég mældi kom í ljós að ég borðaði flesta daga um 400 gr af kolvetnum, stundum meira. Heilsa fyrir ketó: Almennt séð góð að mínu áliti en má þó nefna tvennt sem hefur plagað mig. a. Krankleiki í fótavöðvum, sem lýsir sér eins og CCS (chronic compartment syndrome), þ.e. of mikill vökva-þrýstingur í vöðvum. Hef átt í þessu síðan haustið 2014 og reynt ótalmargt til að stemma stigu við þessu. Það hefur vissulega borið mjög mikinn árangur en ég hef samt fengið svo slæm köst í sumar að ég hef ekki komist lönd né strönd og orðið að láta ná í mig og hjólið.
b. Auk þess hef ég lengi glímt við blóðsykursviðkvæmni. Blóðsykur fellur þá niður fyrir 70 mg/dL (3.9 mmol/L) en getur stokkið upp fyrir 140 mg/dL af því sem mér finnst af minnsta tilefni, eins og t.d. ef ég fæ mér „smá“ popp. Þetta var að valda mér erfiðleikum. Blóðsykurfallið orsakaði handskjálfta og andrenalín kerfið var mjög virkt. Líkamsástand var eins og ég væri mjög óstyrkur þó ég væri andlega sallarólegur. Ráð mitt gegn þessu var að auka kolvetnaneyslu, þ.e. fékk mér leppin og kolvetnagel sem skyndilausn. Það verður að taka fram hér að ég er með snert af tækjadellu, sem ekkert hefur lagast á ketómataræðinu. Ég hef mig meira að segja pínu grunaðan um að ég hafi farið á ketó því ég eygði þar ástæðu til að kaupa enn eitt tækið, þ.e. blóðketómæli. Af þessum sökum er ansi langt síðan að hin dæmigerða baðvog var eina tækið til að mæla heilbrigði og líkamsástand heimilismanna. Öll þessi heilbrigðis- og líkamsmælingatæki eru í seinni tíð vitanlega BT tengd svo ýmsar heilsufræðilegar upplýsingar liggja fyrir langt aftur í tímann, sem kemur sér ágætlega núna. Eiginkonan byrjaði á ketó. Ég var í fyrstu neikvæður og fastur í viðjum gamalla næringarfræða og hafnaði alfarið hugmyndinni. Þetta væri öfgakennt, glúkósi væri lífsnauðsynlegur og við þyrftum að fá hann úr fæðunni, heilinn gæti bara brennt glúkósa, konan yrði klárlega beri beri, skyrbjúg eða öðrum hörgulsjúkdómum að bráð vegna skorts á snefilefnum o.s.frv. Svo tók ég mér tak og bægði frá mér þröngsýni. Eftir að hafa víkkað sjóndeildarhringinn komst ég að því að hugmyndir mínar um ketó voru reyndar allar með tölu tóm þvæla, vitleysa og kerlingarbækur. Ég ákvað því að prófa þetta athyglisverða ketómataræði, sem einfaldlega er svo, að orkuþörf er mætt með ca. 5% kolvetnum, 15-20% próteinum og 75-80% fitu. Þetta breytir efnaskiptum líkamans. Ég hef verið rúmlega 5 vikur á þessu fæði. Ég hef fundið fyrir þessum breytingum. 1. Svimi, sem hvarf með því að auka saltneyslu. 2. Svo mikið orkuleysi í hjólaferðum að ég komst stundum með naumindum heim aftur. 3. Eftir ca. 3 viku eða 4. þá hætti orkuleysið að hellast yfir í reiðhjólaferðum. Núna hjóla ég bara og hjóla þangað til mig langar heim. 4. Ótrúlega fljótur að jafna mig eftir æfingar og hjólaferðir. Vöðvaþreyta og verkir ekki fyrir hendi lengur. Þetta er verulegur munur. 5. Almennt minni bólgur og verkir í liðamótum og baki. 6. Léttist um 2 kg (fór af miðjunni sýnist mér) og eftir það er þyngdin í jafnvægi, og sveiflast minna en hún gerði hér áður. Kemur heim og saman við rannsóknir sem sýna að miðjufita eyðist á þessu mataræði. 7. Vöðvar mýkri, fjaðurmagnaðri, og fljótari að jafna sig, (get ekki sagt það nógu oft þetta er svo magnað). 8. Þegar ég æfi er öndun hægari en áður. Minni þörf er fyrir súrefni við fitubrennslu en kolvetnabrennslu, auk þess sem koltvísýringur og mjólkursýra eru minni í blóði, en hvorutveggja öskrar á meira loft. 9. Blóðsykur er jafn um 90-100 mg/dL. Ég borða nær engin kolvetni. Ég læt líkamann um að stjórna blóðsykurmagni með gluco-neo-genesis, þ.e. glúkósa-ný-myndun úr öðrum efnum en kolvetnum. Kenningar komu fram um GlúkósaNýMyndun (GNM) líkamans árið 1929 og þær vor sannaðar 40 árum síðar. Sífellt eru að koma fram nýjar upplýsingar um GNM. Frumum og líffærum fjölgar, sem rannsóknir sýna að færar eru um GNM. En ekki nóg með það heldur fjölgar þeim efnasamböndum sem við vitum um að líkaminn getur breytt í glúkósa. Fyrst voru það mjólkursýrur (Cori mjólkursýruhringurinn 1929). Eftir það hefur vísindamönnum orðið ljóst að líkaminn getur breytt sumum amonísýrum og glýseróli í glúkósa. Lengi hefur þó verið talið að AcetylCoA geti líkaminn ekki breytt í blóðsykur en nú hefur verið sýnt fram með tölvulíkani á margar leiðir sem líkaminn hefur til þess. Ef þetta verður sannað á rannsóknarstofu er það ekki bara glýseról hluti fitu (þríglýseróls) sem líkaminn getur breytt í glúkósa heldur fitumólikúlunum líka, sem sé breytt fitu í glúkósa. Þá skýrist betur hvers vegna Inúítar hafa haldið velli í 6000 ár á fitu og kjöti einu saman og Vilhjálmur Stefánsson (og Anderson) dóu ekki í frægu Beaumont sjúkrahúss (NY, USA) tilrauninni 1928. Þá borðuðu þeir eingöngu kjöt og fitu í heilt ár undir nákvæmu eftirliti vísindamanna sem allir héldu að viðfangsefnum þeirra biði bráður baninn, en þeim til undrunar farnaðist báðum vel. Vísindin sögðu hins vegar, „computer says NO“ og lokuðu þessari bók, og tróðu brauði, grænmeti og ávöxtum í inúítana. Það er kannski ekki fyrr en nú sem menn eru að skilja þetta betur. En þetta er gríðarlega flókið og langt í land að mannskepnan skilji eigin efnaskipti og orkubúskap. Allir ættu að hafa í huga að enginn maður hefur nokkurn tímann skilið þessi atriði til hlýtar. Það er hins vegar fullt af fólki sem er að vinna vel að þessu og mikilvægt að allir hafi opinn huga gagnvart því sem nýtt er í þessum fræðum. Við komumst ekkert áfram með þröngsýni og íhaldssemi. 10. Ketónar fóru úr því að vera næstum engir í að vera 1,3-1,7 mmol/L. 11. Ég segir síðar frá LDL og HDL kólesteróli og öðrum blóðbúskap. Ég lét mæla áður en ég hóf þessa vegferð en ætla að bíða með frekari mælingar þar til eftir nokkra mánuði. Tilraunir og rannsóknir á ketómataræðinu sýna þó að blóðfita minnkar (þríglýseról), LDL agnir stækka og þeim fækkar (sem hvorutveggja er gott), HDL kólesteról í blóði eykst sem er gott (HDL fer með fitu úr blóðinu til vinnslu). Auk þess minnka bólgur og miðjufita eyðist. Þetta er eins og uppskrift af hjartaheilbrigði. Má kannski segja að ketófæði sé umfram annað, hjartans mál. 12. Sef miklu betur. Mér fannst ég reyndar sofa alveg ljómandi vel fram að þessu, vissi bara ekki betur. Það gerðist að vísu reglulega að ég vaknaði kófsveittur en hélt að það væri bara hluti af prógramminu. Það hætti við ketó og ég hef nú áttað mig á því að þetta eru einkenni blóðsykurfalls, sem verður á nóttunni (hypoglycemia). Úr því að líffærin þurfa ekki lengur að strita á nóttunni við að halda blóðsykrinum uppi vaknar allt kerfið betur hvílt að morgni en áður. 13. Ekki lengur hjartsláttartruflanir, sem ég hélt að væri vegna of mikillar koffeinneyslu. 14. Borða minna í einu. 15. Er lengur saddur. 16. Minna svangur. 17. Melting miklu betri og allt það, fer ekki nánar út í það. 18. Og svo rúsínan í pylsuendanum, ég hef ekki fundið til CCS (chronic compartment syndrome), einkenna, 7, 9, 13 .... Ég hef þó aukið fótaæfingar, byrjaði m.a. í crossfit (sem ég hafði líka megnustu fordóma gegn en það er önnur saga). Þetta er alveg með ólíkindum. Ég veit auðvitað alveg að þetta gæti komið aftur, það væri högg, slaghamarinn í hausinn, en ... er á meðan er, eða kannski frekar fer á meðan fer. Ég hef fundið þekktar vísindalegar skýringar á öllum ofangreindum breytingum, nema nr. 11. Ætla þó ekki að þreyta ykkur á þeim núna (en kannski seinna 😊). Út frá þekktum einkennum og verkunum kolvetna og efnaskipta má hins vegar alveg giska á skýringar á því hvers vegna CCS hvarf. Ég hef greinilega kolvetnaóþol sem ég reyndi að glíma við með meiri kolvetnum, sem er sjálfsagt eins og að senda slökkviliðið af stað með eldvörpur en ekki vatnsslöngur. Ég hef nú hætt að borða ýmislegt sem ég vildi gjarnan ekki hætta að borða. Hins vegar er það svo furðulegt að eftir nokkrar vikur á ketófæði hverfur löngun í það, sem ég áður taldi mig ekki geta verið án. Farið hefur fé betra en fæði innantómra ónauðsynlegra kolvetnamólikúla. Ég er greinilega einn af mörgum sem ekki þola fæðu-kolvetni og því er ekkert annað að gera en hætta að borða kolvetni. Það er ekkert til sem heitir „hæfilegt“ eða „balanserað“ magn af glúteinum eða laktósa fyrir þá sem eru með óþol fyrir slíku. Það gildir vitanlega nákvæmlega það sama um kolvetni í fæðu. Svo bless C12H22O11. og allt ykkar slekti.
Comments