• Þorsteinn Hjaltason

Ellefu hengdir í Sölvagili á Vaðlaheiði

Updated: Nov 24, 2018

Í 11. bindi Íslenskra fornbréfa bls. 403-405 segir frá 12 manna dómi sem árið 1545 kvað upp dóm yfir 15 mönnum, sem grunaðir voru um þjófnað. Hafði sá orðrómur komist á kreik að þeir stælu sauðum og öðrum peningum. Þótti það ekki að fullu sannað en líkur voru til að þessir 15 menn væru sekir. Til þess að slíkur þjófnaður legðist ekki í vana var þessum mönnum dæmdur sjöttareiður. Áttu þá 6 menn að sverja sakleysi viðkomandi og væri hann þá laus allra mála en annars sekur. Af þeim 15 sem sakaðir voru varð 11 eiðsfall og voru hengdir í Gálgagjá árið 1546. Gálgagjá er sögð vera í Sölvagili sem er næsta gil sunnan Steinkirkju í Fnjóskadal. Í því er Sölvagilsfoss.


Sölvagilsfoss

Göngustígurinn yfir Bíldsárskarðið liggur yfir Sölvagilsána áður en farið er fyrir Axlir. Þegar fyrir Axlir er komið liggur vegurinn beint í suður niður hlíðina að Grjótá þar sem hliðið er. Einn sakamanna var Sölvi Guðmundsson og heitir gilið e.t.v. eftir honum.Ari Jónsson (1508-1550) á Möðrufelli í Eyjafirði hafði þá konungsins sýslu og umboð í Vaðlaþingi og kallaði saman dóminn. Ari var svo hálshöggvinn nokkrum árum síðar eða 7. nóvember árið 1550 ásamt Birni bróður sínum, sem var prestur á Melstað í Miðfirði, og föður sínum, Jóni Arasyni (1484-1550) Hólabiskupi, sem var síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi fyrir siðaskipti.


Jón Arason biskup. Mósaíkmynd á vegg yfir gröf hans í turni Hóladómkirkju.


34 views0 comments

Recent Posts

See All