top of page
Writer's pictureÞorsteinn Hjaltason

Egill Skallagrímsson #meto

Undir lok 10. aldar var Egill Skallagrímsson (904-995) orðinn gamall og staulaðist með vegg ásamt öldruðum vini sínum. Egill rak tærnar í eitthvað og datt á hausinn. Konur nokkrar sáu og hlógu að og mæltu: "Farinn ertu nú, Egill með öllu, er þú fellur einn og saman." Förunautur Egils mælti þá frekar súr: "Miður hæddu konur að okkur, þá er við vorum yngri."

En húmoristinn Egill kvað:

Vals hef ég vofur helsis, váfallr er ég skalla. Blautur erum bergis fótar borr, en hlust er þorrin.

Egill var snillingur. Hann faldi orð sín gjarnan í torræðum kenningum svo hann gæti sagt það sem hann vildi án þess að misbjóða neinum en skellihló svo með sjálfum sér yfir því hve sniðugur og snjall hann var. Hér gerir hann reyndar stólpagrín að sjálfum sér. Segir að hann sé hættulega hrösull fyrir sinn eigin skalla vegna þess að hann þjáist af riðu, (Vals hef ég vofur helsis (riðu hef ég) váfallr er ég skalla (hættulega hrösull fyrir skallann)) auk þess sé hann orðinn heyrnarlaus, (hlust er þorrinn). En þar lýkur ekki raunum hans í ellinni, því auk þess er getnaðarlimurinn (bergis fótar borr) orðinn honum að eilífu linur (blautur). Egill hefur vafalaust skemmt sér vel og talið að hann hafi náð sér pínulítið niður á þessum gamansömu konum með því að vera örlítið dónalegur án þess að þær botnuðu í því hvað hann var að segja.

:) Egilssaga var rituð á söguöldinni miklu á Íslandi einhverntímann á bilinu frá 1220 til 1240 og á að gerast ca. 850-1000. Kvæðið má finna á bls. 209 í Egilssögu útg. 1989 af AB.

80 views0 comments

Comments


bottom of page