Það er bæði ný og gömul íþrótt þeirra eldri að gagnrýna ungviðið. Það er sennilega sama hvað þau gera það verður aldrei alveg rétt. „Þú ert aldrei heima hjá þér.“ eða „Þú ert allt of mikið fyrir framan tölvuna, þarftu ekki að fara út og hitta vini þína.“ o.s.frv. Ég rakst á eina slíka í Vatnsdæla - Íslendingasögu sem gerist ca. 900-1000 og var rituð um 1270 í Þingeyrarklaustri í Húnavatnssýslu. Ég er knúinn til að deila þessu með áhugasömum. Fyrir ríflega þúsund árum síðan þusaði Ketill þetta yfir Þorsteini syni sínum: „Önnur gerist nú atferð ungra manna en þá er ég var ungur. Þá girntust menn á nokkur framaverk, annað tveggja að ráðast í hernað eða afla fjár og sóma með einhverjum atferðum þeim er nokkur mannhætta var í. En nú vilja ungir menn gerast heimaelskir og sitja við bakelda og kýla vömb sína á miði og mungáti og þverr því karlmennska og harðfengi ... „ Foreldrar finna alltaf eitthvað. Þorsteinn ræfillinn vildi vera heima í friðsemd og rólegheitum, sinna búverkum og súpa hunangs-vín og bjór með vinum og vandamönnum. En, nei, að sjálfsögðu fannst foreldrinu þetta hin mesta fásinna og skilur bara ekkert í því hvers vegna barnið er ekki fyrir löngu farið út í heim að myrða fólk og ræna eigum þess.
Þorsteinn Hjaltason
Comments