top of page
  • Writer's pictureÞorsteinn Hjaltason

Anda að sér fitu náungans.

Áreiðanlega hafa komið dagar í ræktinni þegar ykkur hefur þótt, að loftgæði mættu vera betri. Eitthvað hefur angrað eins og t.d. lykt, agnir í lofti eða tilfinning um loftleysi, t.d. ef 45 manns strita í litlum spinningsal þar sem allar gáttir eru vandlega lokaðar. Pirrandi kannski, en fáum dettur í hug að loftið kunni að vera skaðlegt. Að heilsuferðin í ræktina sé kannski bara hin mesta óhollustu og betur hefði verið heima í sófanum setið en af stað farið. Almennt er fólk vakandi fyrir mengun í andrúmslofti, gróðurhúsaáhrif, hlýnun jarðar og allt það. Mengunargrímur og mælar seldust upp á norðurlandi í síðasta eldgosi. Í líkamsræktarstöð er mikilvægt að loftgæði séu góð því mikil upptaka súrefnis er nauðsynleg við fitubrunann, sem þarna á að fara fram. Ekki er þó fylgst með loftgæðum því engir eru mælarnir. Væri sjálfsagt fróðlegt fyrir fólk að hafa með sér í ræktina mælinn, sem keyptur var í síðast eldgosi. Ég hef aðeins verið að impra á þessu en hvorki fengið hljómgrunn hjá rekstraraðilum né iðkendum. Ég hef því, af heilsufarsástæðum, neyðst til að sleppa þeim tímum sem verstir eru hvað loftgæði áhrærir. Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að hlæja eða grenja yfir að þurfa að sleppa heilsuræktartímum vegna þess hve óhollir þeir eru. Loftmengun er talin alvarleg utanhúss og allir fussa. En þegar menn eru kominn inn fyrir dyr, þá gilda allt önnur lögmál og mengun er gleymd og allt í stakasta lagi. Mér hefur ekkert orðið ágengt í þessari umræðu og ég held ég hafi áttað mig á því hvers vegna það er. Gleymd eru grundvallarefnaskipti líkamans. Ég held að rekstraraðilar líkamsræktarstöðva trúi því, að fitan bara hverfi og verði að engu eins og þeir auglýsa gjarnan að gerist ef þú mætir í líkamsræktarstöðina til þeirra. Ég ætla því að breyta um baráttuaðferð með því að rifja upp hvað gerist þegar lífræn efni eins og fita eru brennd. Í illa loftræstri líkamsræktarstöð ertu að anda að þér brenndri líkamsfitu náunga þíns, þ.e. því sem fitann af honum breyttist í. Slík innöndun er ekki bara ógirnileg, fráhrindandi og ófýsileg heldur líka afskaplega óholl. Ég skal finna orðum mínum stað. Hvað verður af fitu sem við brennum af okkur? Hún verður ekki að engu og hverfur. Hún breytist heldur ekki t.d. í hita, orku, vöðva eða saur. Nei, fitan breytist í vatn og koltvíildi. Koltvíildi er líka nefnt koldíoxið, koltvísýringur og hefur efnaformúluna CO2. Koltvísýringur er ein af þessum illræmdu gróðurhúsalofttegundum, sem valda hlýnun jarðar. Koltvísýringur losnar við brennslu allra lífrænna efna og þar með auðvitað líka þegar líkaminn brennir fitu. Fita er búin til úr kolefni (C), vetni (H) og súrefni (O), algeng fita er t.d.= C55H104O6. Líkaminn brennir fitu í heljarflóknu efnaferli þar sem líkaminn blandar saman súrefni (O2) og t.d. fitu sem eldiviði. Svona rétt eins og gerist í blöndungi véla 😊. Til dæmis verður 10 kg af fitu að 8,4 kg af koltvísýringi (CO2), sem við öndum frá okkur, og 1,6 kg af vatni (H2O) sem við losum okkur við sem svita, tár, þvag o.s.frv. Líkaminn notar 29 kg af súrefni við að brenna þessari 10 kg fituhrúgu, sem við öndum frá okkur sem koltvísýringi (CO2). Koltvísýringur, CO2, í lofti er mældur í ppm (parts per million). Magn þess í andrúmslofti hefur verið tiltölulega stöðugt síðustu 10.000 árin (frá síðustu ísöld) eða um 275-285 ppm en hefur aukist um 100 ppm eftir iðnbyltingu, er núna sem sé tæplega 400 ppm, sem kannski hefur orðið til að forða okkur frá ísöld. Koltvísýringur er skaðlegur fyrir manneskjur, menn komast í andnauð, mása eins og rollur og á endanum bíður maðurinn með ljáinn. Í einum hvíldarandardrætti felast 30.000 ppm. Koltvísýringur getur því aukist afar hratt þó fáir séu í herbergi og andi rólega. Í 3,5 m x 4 m skrifstofu þar sem einn maður stritar ekki meira en að sitja og horfa á tölvuskjá breytist koltvísýringur í lofti úr að vera um 400 ppm í að vera meira en 1000 ppm á 45 mínútum en 1000 ppm eru venjulega sett sem heilbrigðishámark innanhúss. Rannsóknir hafa sýnt að í skólastofum og skrifstofum er koltvísýringsmagn oft meira en 3000 ppm, sem leiðir m.a. til einbeitingarskorts, höfuðverkja og almennt minni andlegrar getu. Við getum þá rétt ímyndað okkur hvert koltvísýringsmagn er í litlum sal þar sem 45 manns streða, loftræsting virkar ekki og til að bíta höfuðið af skömminni eru allir gluggar lokaðir. Í slíku álagi gengur eitrið lengra inn í lungun en í hvíld og tjónið því að sama skapi meira. Með örlitlu skáldaleyfi má því segja, að í illa loftræstum spinningsal öndum að okkur líkamsfitu næsta manns okkur til tjóns.

Því má bæta við, að sá sem brennir fitu (er á ketófæði, þ.e. lágkolvetnafæði) skilar frá sér minna af koltvísýringi en sá sem brennir kolvetnum. RQ og RER eru mælikvarðar á hlutfall súrefnis og koltvísýrings í öndun, þ.e. VCO2/VO2, (V=volume). Hlutfallið er 1 hjá þeim sem eru á kolvetnum en 0,7 hjá þeim sem brenna fitu (ketófæði). Sá sem situr í rólegheitum og les þessa langloku notar um 200 cc af súrefni á mínútu, ef viðkomandi hefði fengið sér snúð og ávaxtasafa í hádeginu væri hann aðallega að brenna kolvetnum (með sykurrofi eða glýkólýsu) og RQ stuðull því 1 og andaði því frá sér 200cc af gróðurhúsalofttegundinni CO2. Ef hann væri á ketó, og hefði fengið sér svínaspik og egg, væri CO2 magnið bara 140 cc , því RQ stuðull er lægri eða 0,7 (200cc af 02*0,7 verða 140cc af CO2) við brennslu fitusýra (þ.e. með betaoxun fitusýra/=oxidative phosphorylation ef þið viljið gúggla). En ketóar fagnið ei, það felst engin kolefnisjöfnun í því þó þið andið frá ykkur minna magni af CO2. Þetta er bara hluti af því CO2 sem er í umferð á okkar tímum. Þetta er CO2 hringrás. Þið eruð bara að skila því sem þið fenguð með fæðunni aftur út í andrúmsloftið, þ.e. minna CO2 inn minna út. Lærdómurinn er hins vegar þessi; þegar þið farið í spinning næst skulið þið lýsa eftir þeim sem fengu sér beikon og egg í morgunmat og vera við þeirra hlið í tímanum, þar er súrefnisríkara en við hlið kolvetnaætu😊.


30 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page