top of page
  • Writer's pictureÞorsteinn Hjaltason

Úr gapastokki í alsnægtir með böðli sínum.

Updated: Nov 22, 2018

Bessi Árnason (1736-1795) var ríkur bóndi og hreppstjóri á Ormarsstöðum í Fellum á Austurlandi. Hann var auknefndur auðgi. Kona hans var Málmfríður Árnadóttir. Jófríður Magnúsdóttir, (1764-1841) var hins vegar fædd í fátækt og missti ung föður sinn og elsta bróður. Hart var í ári. Sérlega var erfiður síðasti fjórðungur 18. aldar þegar Móðuharðindin urðu þúsundum Íslendinga að fjörtjóni. Auk þess sem meiri hluti búfjár þjóðarinnar féll úr hor og eiturgufum. Móðuharðindin voru verst 1785 en þá var Jófríður annað hvort niðursetningur, þ.e. sveitarómagi, eða vinnukona á Ormarsstöðum. Skammt frá Ormarsstöðum fór hestur í fen og hafði legið þar dauður í nokkra mánuði er Jófríður, á páskadag 1785 þegar aðrir voru í kirkju, náði sér í bita, sauð hann og át. Hafði hún með þessu gerst sek um þrennslags óknytti, unnið á helgum degi, tekið kjötið ófrjálsri hendi og síðast en ekki síst var bannað að borða hrossakjöt. Á hvítasunnudegi (þ.e. 49 dögum síðar) var Jófríður á leið til kirkju er hún varð þess áskynja að fyrirhugað var að setja hana í gapastokk fyrir brot hennar um páskana. Henni leyst að vonum illa á þá ráðagerð, snéri við og forðaði sér. Bessi, hreppstjóri skipaði svo fyrir að sækja skyldi Jófríði en kirkjugestir tóku afstöðu með henni gegn yfirvaldinu og fóru hvergi. Bessi neyddist því til að sinna eftirförinni sjálfur. Hann elti Jófríði en þegar hann náði henni og vildi koma henni til baka streittist hún á móti og segja sumar heimildir að hann hafi sagt: “Nú duga engar sperringar.” Önnur heimild segir að þegar hann var að koma Jófríði í gapastokkinn hafi hann sagt: “Nú hjálpa engar stimpingar Jóka.” Þrátt fyrir andspyrnu Jófríðar kom böðullinn járninu um háls hennar en það var fest með keðju í kirkjuvegginn. Þetta fyrirbæri var kallað gapastokkur en í honum var Jófríður látin dúsa, a.m.k. meðan á guðsþjónustunni stóð. Málmfríður eiginkona Bessa dó 1790 eða 1791. Bessi kvæntist Jófríði, konunni sem hann hafði gerst böðull yfir nokkrum árum áður og þröngvað í gapastokkinn. Þau eignuðust son árið 1793 og annan ári síðar. Bessi dó 1795. Jófríður var alla tíð í miklum metum. Hún hafði jafnmikið fylgi í tötrum sínum við kirkjuna árið 1785 og hún hafði síðar í ríkidæmi sínu og allt til dauðadags 1841. Kemur þetta heim og saman við þá lífsskoðun íslendinga, að menn séu metnir eftir því hvað þeir eru en ekki eftir hinu, hvað þeir eiga.

Þveginn ok mettr ríði maðr þingi at, þótt hann sét væddr til vel; skúa ok bróka skammisk engi maðr né hests in heldr, þótt hann hafit góðan. (61 Hávamál)

Menn skulu þvegnir og mettir leggja sitt til málanna á Alþingi, og það skal vera jafngilt þó ytri búnaður, eins og skór, föt og fararskjóti, sé fátæklegur. Lítið er vitað meira um ástarsögu þeirra hjóna, Jófríðar og böðuls hennar. Jófríður hefur áreiðanlega verið afar merkileg kona. Um hana var kveðið:

Á Birnufelli hringa hrund hefur búið lengi Jófríður með jafna lund jarðeigandi er þetta sprund.40 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page