Það er mjög misjafnt hvernig bætur reiknast,  það fer m.a. eftir tryggingaskilmálum og bótategundum.  Algengustu flokkarnir eru bætur skv. slysatryggingum, ýmiskonar dagpeningar úr slysatryggingum og almannatryggingum, greiðslur lífeyris frá ríkinu og lífeyrissjóðum og svo skaðabætur.    Við skulum aðeins líta nánar á greiðslur slysatrygginga og skaðabætur:

a. Slysatryggingar:   Bætur eru greiddar á grundvelli örorkumats.  Í flestum slysatryggingum er örorkumat læknisfræðilegt þ.e. örorka er ekki metin með tilliti til atvinnu heldur eftir almennum stöðlum.   Örorka er t.d. sú sama hjá öllum sem missa putta,  sama hvort viðkomandi er píanóleikari eða fótamódel.   Bætur eru reiknaðar á grundvelli fyrirfram ákveðinna grunnfjárhæða.   Í þessum tryggingum skiptir raunverulegt fjártjón ekki máli,  bæturnar eru þær sömu þó fjártjón sé 5 milljónir eða ekki neitt.

Í örfáum slysatryggingum eru bætur hins vegar reiknaðar miðað við raunverulegt tjón t.d. slysatryggingar skv. umferðarlögum og slysatryggingar sjómanna.    Þá er reiknað hvert t.d. vinnutap er og framtíðar vinnutap vegna skertrar getu til tekjuöflunar og kröfur gerðar um allt tjónið.

b. Skaðabætur:  Gerðar eru kröfur um skaðabætur t.d. vegna umferðarslysa,  úr slysatryggingu sjómanna og slysa þar sem skaðabótaábyrgð er fyrir hendi,  t.d. í bótaskyldum vinnuslysum og frítímaslysum.     Skaðabætur eiga að bæta allt tjón sem tjónþoli verður fyrir.    Það er lögmannsins að sanna hvert það er en það getur verið t.d.:

  1. Tímabundið atvinnutjón fyrst eftir slysið.
  2. Sjúkrakostnaður,  t.d. lyf og lækniskostnaður.
  3. Annað fjártjón,  t.d. ef tjónþoli tefst í skóla,  þarf að breyta húsnæði o.fl.
  4. Þjáningabætur,  þ.e. bætur fyrir ófjárhagslegt tjón, t.d. óþægindi og sársauka fyrst eftir slysið.
  5. Miskabætur,  sem eru bætur vegna varanlegra óþæginda í framtíðinni,  þjáninga o.fl.
  6. Varanlega örorku,  bætur vegna rýrnunar á tekjum í framtíðinni vegna þess að geta til að afla tekna hefur takmarkast til frambúðar.
  7. Dánarbætur,  bætur fyrir missi framfæranda o.fl..

Alls kyns álitamál geta komið upp við ákvörðun skaðabóta vegna slyss.

< Til baka